Velkomin á Hamrar - opið allt árið.

Staðurinn


Hamrar, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri tók til starfa árið 2000 eftir nokkurra ára uppbyggingu. Hamrar er fjölbreytt útivistar- og athafnasvæði þar sem lögð er áhersla á umhverfismál, ferðamál og almenna útivist með þarfir skátahreyfingarinnar og almennings í huga. Hamrar eru landnámsjörð sem byggð var úr landnámi Helga Magra.


Býlin Hamrar eru staðsett í útjaðri Akureyrar undir hrikalegu klettabelti sem aðskilur Eyrarlandsháls og Súlur frá láglendinu við botn Eyjafjarðar. Hamrar eru í miðju útivistarsvæða Akureyrar sunnan Glerár. Til suðurs frá Hömrum er Kjarnaskógur og til norðurs Nausta og Hamraborgir.

Sjá meira um býlin Hamra hér.


Hamrar eru vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem leggja leið sína til Akureyrar. Þetta eru bæði gestir sem gista á tjaldsvæðinu að Hömrum við fullkomnar aðstæður, aðrir ferðamenn og bæjarbúa sem vilja njóta útivistar í fallegu umhverfi þar sem bjóðast ýmsir möguleikar til afþreyingar.  Á svæðinu eru m.a. leikvellir og ýmiskonar leiksvæði ásamt tjörnum með möguleika á ýmsum vatnaleikjum.

Sjá meira um landslag og staðhætti hér


Skátahreyfinginn á Akureyri hafði frumkvæðið og  forgöngu að undirbúningi og framkvæmdum á Hömrum og sér um allan rekstur þess samkvæmt samningi við Akureyrarbæ. Hamrar eru annar af tveimur landsmótsstöðum skáta á landinu. Að Hömrum er annað hvort landsmót haldið. Síðast árið 2014 en það fyrsta árið 2002.


VAKINN

Ferðamálastofa leiðir vinnu við uppbyggingu heilstæðra gæða- og umhverfisviðmiða fyrir íslenska ferðaþjónustu. Nefnist kerfið VAKINN. Hamrar vinna að því að uppfylla öll viðmið vakanns. Tengill á vakann http://www.vakinn.is